Hanni Granni dansari
Höfundur
Gunnar Helgason
Lestur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Forlagið
Hanni granni dansari er einstaklega skemmtileg og lífleg hljóðbók þar sem öllu er tjaldað til. Mikil leik- og sönggleði einkennir texta og upplestur hljóðbókarinnar, en hljóðmyndin er lifandi þar sem meðal annars má heyra brot úr lögum með söngkonunum Selmu Björnsdóttur og Völu Guðnadóttur.
Ekki skemmdi orkumikill lestur höfundarins Gunnars Helgasonar og dómnefndarmeðlimir skemmtu sér konunglega við hlustunina. Boðskapur sögunnar er einstaklega nútímalegur og áríðandi: það skiptir máli hvernig við hegðum okkur á samfélagsmiðlum, og eins og Stella kemst að í bókinni, hafa gjörðir okkar afleiðingar. Það er kafað á dýptina þar sem samband Stellu við bæði vini, fjölskyldu og mögulegan kærasta er í forgrunni.
Semsagt, öll fjölskyldan getur skemmt sér við hlustun á hljóðbókinni Hanni granni dansari.
Hungur
Höfundur
Stefán Máni
Lestur
Rúnar Freyr Gíslason
Útgefandi
Sögur útgáfa
Hungur eftir Stefán Mána er hrollvekjandi glæpasaga þar sem tengsl milli dularfulls mannshvarfs og hrottalegs morðs um hábjartan dag koma af stað spennandi atburðarás sem afhjúpar skuggahliðar mannlegs eðlis. Brátt taka líkin að hrannast upp og ljóst er Hörður og félagar hans í lögreglunni eru að takast á við fjöldamorðingja, blóðugar aðfarir hvers bera glöggt merki um truflaðan og myrkan huga.
Sem áður fer Rúnar Freyr Gíslason á kostum í flutningi sínum sem berdreymni einfarinn Hörður Grímsson og fær hlustendur til að vilja fara að sofa með ljósin kveikt.
Óbragð
Höfundur
Guðrún Brjánsdóttir
Lestur
Arnmundur Ernst Backman
Útgefandi
JPV
Óbragð eftir Guðrúnu Brjánsdóttur er áhrifamikil en jafnframt bráðskemmtileg samtímasaga þar sem höfundur bregður á leik með kunnugleg stef á borð við covid, núvitund og örvæntingu þeirra sem verða skipreka í vellystingakapphlaupi samfélagsmiðla. Í bókinni kynnumst við Hjalta, ungum manni sem dregst inn í heim kakó-hugleiðsluklúbba eftir erfið sambandsslit.
Frásögnin er glettin en jafnframt átakanleg þar sem hún dregur fram sálarflækjur þunglyndis og einangrunar. Persónurnar, sérstaklega hinn ráðvillti Hjalti, eru ljóslifandi í lestri Arnmundar Ernst Backman, sem fangar kvíða og tilvistarkreppu hins unga manns á hátt sem breytir góðri bók í eftirminnilega upplifun.
Systrarna
Höfundar
Kathryn Hughes
Þýðing: Ingunn Snædal
Lestur
Katla Njálsdóttir, Álfrún örnólfsdóttir, Helga E. Jónsdóttir
Útgefandi
Storyside
Sigurvegari í flokki skáldsagna er Minningaskrínið eftir Kathryn Hughes í frábærri þýðingu Ingunnar Snædal. Sagan er mjög vel skrifuð, forvitnileg og er byggð á sönnum atburðum. Hún hverfist um þrjár sögumanns raddir og í þessari snjöllu hljóðbók fær hver rödd sinn sérstaka lesara sem bætir vel við gæði sögunnar og skilar sér í eftirminnilegri hlustun.
Í Minningaskríninu eru möguleikar hljóðbókarinnar nýttir til fulls. Það er unun að hlusta á þær Kötlu, Álfrúnu og Helgu. Lestur þeirra er eðlilegur, áreynslulaus og flæðir vel.
Réttarmorð
Höfundur
Sigursteinn Másson
Lestur
Sigursteinn Másson
Útgefandi
Storytel Original
Fá sakamál á Íslandi hafa jafn goðsagnakennda stöðu í vitund þjóðarinnar og Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Í Réttarmorði er ljóst frá upphafi að sögumaðurinn og rannsakandinn Sigursteinn Másson hefur unnið mikið þrekvirki og hefur djúpan og persónulegan skilning á efninu.
Réttarmorð er virkilega vel unnið verk, þar sem flókinni framvindu er miðlað á skýran og áhrifaríkan hátt. Það er ekki auðvelt að finna nýjan flöt á máli sem er líklega umfjallaðasta sakamál Íslandssögunnar en hér tekst það, ekki síst vegna þess að höfundurinn setur sjálfan sig inn í miðju framvindunnar, svo úr verður persónulegt og fróðlegt verk.
Með þessari seríu tekst Sigursteini að færa þetta óupplýsta mál í nýtt og forvitnilegt samhengi. Frásögnin er aðgengileg og laus við að vera ruglingsleg. Það styður vel við framvinduna að flétta inní frásögnina því sem var að gerast útí hinum stóra heimi á þessum tíma. Þetta er dýrmæt heimild fyrir sögu íslenskra sakamála.
Hljóðvinnsla er til fyrirmyndar og bætir miklu við hlustunarupplifunina bæði með effektum og mjög vel völdum bútum úr lögum frá þessum tíma, þ.e.a.s. frá áttunda áratugnum. Lestur Sigursteins er skýr og ákveðinn og hentar efninu vel.
Litla hafmeyjan
Höfundur
Anna Bergljót Thorarensen
Lestur
Andrea Ösp Karlsdóttir, Anna Bergljót Thorarensen, Árni Beinteinn Árnason, Stefán Benedikt Vilhelmsson, Sigsteinn Sigurbergsson, Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir, Þórunn Lárusdóttir
Útgefandi
Leikhópurinn Lotta
Litla hafmeyjan er einstaklega skemmtileg og vel gerð hljóðbók. Upphaflega var Litla hafmeyjan söngleikur sem Leikhópurinn Lotta sýndi um land allt en aðlagaði svo einstaklega vel að hljóðbókaforminu.
Dómnefndin var sammála að leikgleðin hafi ráðið ríkjum þar sem heildar myndin var virkilega sterk og allir leikarar fóru á kostum í hlutverkum sínum og ekki skemmdi fyrir frábær boðskapur varðandi náttúruvernd.
Einnig vildum við minnast á hversu skemmtilega snúið er upp á söguna um Litlu hafmeyjuna og sjá má frábæra birtingamynd ástarinnar sem blómstar að lokum á milli konungssonarins Hlina og hafmeyjunnar Sævars.
Þú sérð mig ekki
Höfundur
Eva Björg Ægisdóttir
Lestur
Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Haraldur Ari Stefánsson, María Dögg Nelson, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Sigríður Láretta Jónsdóttir og Þórey Birgisdóttir
Útgefandi
Veröld
Þú sérð mig ekki eftir Evu Björgu Ægisdóttur fléttar saman mikla fjölskyldusögu við spennandi glæpasögu sem á sér stað á lúxushóteli á Snæfellsnesi. En þegar hin áhrifamikla Snæbergsfjölskylda kemur öll saman undir sama þaki er voðinn vís og gömul fjölskylduleyndarmál leita upp á yfirborðið. Bókin er metnaðarfullt verkefni og vel uppbyggð.
Enn sýnir Eva Björg hvers vegna hún er einn fremsti glæpasagnahöfundur vorrar þjóðar. Góð bók verður enn betri í hljóðbókarlestri færs lesendahóps, en hann skipa: Sigríður Láretta Jónsdóttir, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Þórey Birgisdóttir, Haraldur Ari Stefánsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson og María Dögg Nelson. Hver og einn lesari gæðir persónur bókarinnar lífi, eykur áhrif söguþráðarins til muna og hjálpar hlustandanum að greina á milli persónanna. Þú sérð mig ekki er kraftmikil glæpasaga sem lifnar við á nýjan hátt í eyrum hlustanda sem vill ekki slökkva á tækinu fyrr en síðasti taktur hljóðbókarinnar slær.
Litla bakaríið við Strandgötu
Höfundu
Jenny Colgan
Þýðing: Ingunn Snædal
Lestur
Ester Talía Casey
Útgefandi
Angústúra
Það sem fær Litla bakaríið við Strandgötu til að bera af í sínum flokki er natnin sem Jenny Colgan sýnir við að draga fram vettvang sögunnar – smáþorpið Mount Polbearne við strendur Cornwall-sýslu. Þangað flýr aðalsöguhetjan Polly í leit að andrými eftir ófarir í bæði atvinnu- og ástamálum. Á þessum heillandi útnára, sem er einungis aðgengilegur frá meginlandinu þegar sjávarföll leyfa, kynnist hún ýmsum kynlegum kvistum. Lesandinn fylgist með því hvernig Polly aðlagar sig smátt og smátt að lífinu í þessu rólega þorpi og skapar sér sinn sess á meðal þorpsbúa.
Í meðhöndlun Colgan breytist þorpið og nærumhverfi þess í töfrandiveröld sem er freistandi að gleyma sér í um stund og hikar hún ekki við að nostra við jafnvel sínar smæstu persónur og gæða þær lífi. Það er því einkar aðdáunarvert hvernig þægilegur og áreynslulaus lestur Estherar Talíu Casey nær að halda utan um þetta stóra persónugallerí.
Konan hans Sverris
Höfundur
Valgerður Ólafsdóttir
Lestur
Margrét Örnólfsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Í Konunni hans Sverris fáum við að heyra hispurslausa frásögn konu sem hefur loks fundið frelsið til að segja sögu sína á eigin forsendum. Hildur, sögukona bókarinnar, lýsir á blákaldan máta veruleika kvenna sem eru fastar árum eða áratugum saman í samböndum sem ógna lífi þeirra og heilsu. Hún hlífir hvorki sjálfri sér né geranda sínum þegar hún tekst á við sjálfsblekkinguna og réttlætingarnar sem fólk leitar í til að lifa af í slíkum aðstæðum.
Saga Hildar er um margt svo kunnugleg. Lesandinn fær á tilfinninguna að andlega og líkamlega ofbeldið sem hún lýsir gæti allt eins átt sér stað í næsta húsi eða innan eigin
fjölskyldu.
Lestur Margrétar Örnólfsdóttur gæðir rödd Hildar bæði þroska og visku konu sem horfir til baka og syrgir glataðan tíma en finnur jafnframt fyrir styrk sínum í því að hafa lagt ofbeldið að baki og skapað öruggt skjól fyrir sjálfa sig og börnin sín.
Veran í moldinni
Höfundur
Lára Kristín Pedersen
Lestur
Þuríður Blær Jóhannsdóttir
Útgefandi
Sögur útgáfa
Veran í moldinni – Hugarheimur matarfíkils í leit að bata eftir Láru Kristínu Pedersen er virkilega voguð og skörp frásögn höfundar á mjög áhugaverðu efni sem fáir þekkja en margir geta tengt við. Fíknin birtist okkur í mörgum myndum.
Lára Kristín segir frá, opnar sig og ritar sína sögu um baráttu við matarfíkn af einlægni og heiðarleika. Hún berskjaldar sig fyrir hlustandanum og hikar hvergi við að galopna hjarta sitt og horfast í augu við þá erfiðleika og það mótlæti sem þessi erfiði sjúkdòmur hefur að geyma. Hún er sjálfsgagnrýnin og dregur ekkert undan í frásögn sinni.
Skýr lestur og áheyrileg rödd Þuríðar Blævar bætir við söguna með sinni næmu nálgun og góðri tilfinningu fyrir efninu. Frásögnin er fræðandi og aðgengileg og hentar hljóðbókarforminu vel.
Hundrað óhöpp Hemingways
Höfundur
Lilja Sigurðardóttir
Lestur
Örn Árnason, Lilja Sigurðardóttir, Lára Sveinsdóttir, Kolbeinn Arnbjörnsson, María Dögg Nelson
Útgefandi
Storytel Original
Lilju Sigurðardóttur tekst einstaklega vel að draga upp mynd af lífshlaupi nóbelskáldsins Ernest Hemingway og nýtir til þess alla bestu möguleika hlaðvarpsmiðilsins. Persónulegur áhugi og ástríða Lilju fyrir efninu skín vel í gegn, þá helst í skálduðum samtölum sem binda listilega saman framvinduna.
Hljóðupptökur eru vandaðar, hljóðvinnslan og hljóðblöndunin er til fyrirmyndar þannig að þættirnir mynda mjög sterka og áheyrilega heild.
Sögur fyrir svefninn
Höfundur
Eva Rún Þorgeirsdóttir
Lestur
Salka Sól Eyfeld
Útgefandi
Storytel Original
Skapað er öruggt rými fyrir börn þar sem þau eru leidd inn í slökun með persónulegum lestri. Til verður nánd milli lesara og barns sem kemst í ró fyrir svefninn. Sögur fyrir svefninn hentar hljóðbókarforminu fullkomlega og möguleikar þess eru nýttir til hins ítrasta þar sem hljóðheimurinn virkjar ímyndunarafl barnsins.
Flutningur Sölku Sólar er hlýlegur og yfirvegaður og vel til þess fallin að börn finni frið og kyrrð og komist örugglega inn í draumaland.
Dansarinn
Höfundur
Óskar Guðmundsson
Lestur
Daníel Ágúst Haraldsson
Útgefandi
Storytel Original
Í Dansaranum segir Óskar Guðmundsson harmræna sögu af manni sem býr við stöðugt mótlæti og höfnun. Höfundur lýsir hryllilegum atburðum en snertir um leið við lesanda með hlýju og næmni við mótun persóna sinna.
Daníel Ágúst Haraldsson lyftir verkinu svo í hæstu hæðir með innlifuðum og grípandi lestri. Hljóðvinnsla verksins er fyrsta flokks. Dansarinn er skáldsaga sem vekur ýmsar áleitnar spurningar og sækir áfram á lesandann löngu eftir að hlustun lýkur.
Tengdadóttirin I - Á krossgötum
Höfundu
Guðrún frá Lundi
Lestur
Silja Aðalsteinsdóttir
Útgefandi
Mál og Menning / Forlagið
Tengdadóttirin er sígildur sveitarómans þar sem Guðrún frá Lundi sýnir á sér allar sínar bestu hliðar. Við kynnumst fjölda ólíkra persóna í íslensku bændasamfélagi fyrri tíma og fáum innsýn í veröld sem var – jafnvel þótt söguheimurinn kunni að orka framandi á marga lesendur í nútímanum er verkið alltaf aðgengilegt og skemmtilegt enda lýsir það tilfinningum og örlögum manna sem allir geta samsvarað sig við.
Lestur Silju Aðalsteinsdóttur er hlýr og þægilegur, hún leyfir sér að lifa sig inn í ólíkar persónur án þess að ofgera nokkru sinni leikrænum tilburðum sínum. Hljóðvinnslan er einföld en vel heppnuð. Hljóðbók sem sýnir að oft er einfaldleikinn bestur: vel skrifuð og skáldsaga og góður lesari eru töfraformúlan.
Bróðir
Höfundur
Halldór Armand
Lestur
Einar Aðalsteinsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir
Útgefandi
Mál og Menning / Forlagið
Bróðir er stór og sterk skáldsaga þar sem Halldór Armand leikur af öryggi á marga strengi. Höfundur nær í senn að magna upp spennu og forvitni hjá lesanda um afdrif persóna sinna og setja fram skarpa samfélagsgreiningu.
Margradda frásagnaraðferð bókarinnar leiðir til þess að hún hentar einkar vel sem hljóðbók og standa lesararnir, Einar Aðalsteinsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir, sig með eindæmum vel. Hljóðvinnsla og lestur til stakrar fyrirmyndar. Eftirminnileg og frumleg bók.
Fjórar systur
Höfundur
Helen Rappaport
Lestur
Vera Illugadóttir
Útgefandi
Storyside / Ugla útgáfa
Í Fjórum systrum nýtir sagnfræðingurinn Helen Rappaport sér aðferðir skáldsögunnar til að segja stóra og grípandi sögu af örlögum fjögurra rússneskra kvenna. Útkoman er fræðandi ferðalag um fortíðina sem heldur lesandanum alltaf við efnið.
Lesarinn Vera Illugadóttir hefur blæbrigðaríka rödd sem landsmenn hafa fyrir löngu tekið ástfóstri við og hér flytur hún textann af þvílíkri innlifun að halda mætti að hún hefði sjálf ritað verkið. Hljóðvinnsla er vönduð og fagmannleg. Einstök bók um harmræn örlög systranna Olgu, Tatjönu, Maríu og Anastasíu.
Í ljósi sögunnar
Höfundur
Vera Illugadóttir
Lestur
Vera Illugadóttir
Útgefandi
RÚV
Veitt voru sérstök verðlaun fyrir vinsælasta hlaðvarpið þar sem höfundur og lesari vann sig inn í hug og hjörtu hlustenda.
Sönn Íslensk sakamál sería 4
Höfundur
Sigursteinn Másson
Lestur
Sigursteinn Másson
Útgefandi
Storytel Original
Sagan flæðir áfram á hárrétum hraða, hæfilega skreyt með áhrifahljóðum, tónlist og hljóðblöndunin mjög góð. Leiklestur og viðtöl krydda sögurnar mikið. Klipping lestur, val á áhrifahljóðum og tónlist er eins fagmannlegt og kostur er á. Heildarhljómur þannig eins og best er á kostið.
Eyðieyjan
Höfundur
Hildur Loftsdóttir
Lestur
Álfrún Helga Örnólfsdóttir
Útgefandi
Sögur útgáfa
Geðveik saga og mjög spennandi. Söguþráðurinn er blandaður við gamlar sögur og daginn í dag og kemur vel út. Lesið rosalega vel og ekki alltaf bara með sömu rödd heldur með mismunandi röddum fyrir persónur. Mæli með fyrir alla.
Mjög góð bók, ein af mínum uppáhalds íslensku barnabók. Lestur er mjög góður og
leiklestur fínn. Mæli vel með henni fyrir 7-13 ára.
Mér fannst þessi bók frábær. Sagan var spennandi og kom á óvart. Lesarinn las mjög
vel.
Illvirkið
Höfundur
Emelie Schepp
Þýðing: Kristján H Kristjánsson
Lestur
Kristján Franklín Magnússon
Útgefandi
MTH útgáfa
Hörkuspennandi glæpasaga sem rígheldur hlustanda allt frá fyrstu línu til þeirrar síðustu. Emilie Schepp er flink í að byggja upp spennu og óhugnað, flétta saman örlögum vel mótaðs persónugallerís og bregða birtu á ýmis áleitin samfélagsmálefni.
Það sem lyftir Illvirki í verðlaunasæti er þó óumdeilanlega hinn framúrskarandi lestur Kristjáns Franklíns Magnúsar sem dómnefnd var sammála um að væri í algjörum sérflokki. Lestur Kristjáns Franklíns er leikrænn og lifandi, með litríkum blæbrigðum, en þó um leið nægilega hófstilltur til að hann þjóni ævinlega sögunni sjálfri og dragi ekki óþarfa athygli að hæfileikum lesara. Flutningur á heimsmælikvarða.
Sextíu kíló af sólskini
Höfundu
Hallgrímur Helgason
Lestur
Hallgrímur Helgason
Útgefandi
Forlagið
Stór og mikil skáldsaga, í anda mestu verka Nóbelsskáldsins, og hátindur á ferli höfundar fram til þessa. Dómnefnd var sammála um að hér væri spilað á stærri skala en í öðrum tilnefndum skáldsögum.
Tilþrif í stíl og frásagnarlist eru mikil – og sama gildir um lestur höfundar, sem er innlifaður og þróttmikill. Skáldsaga sem nær þeim sjaldgæfu hæðum að vera í senn framúrskarandi afþreying og einstakt listaverk, engu lík en þó kunnugleg og aðgengileg.
Óstýrláta mamma mín og ég
Höfundur
Sæunn Kjartansdóttir
Lestur
Sæunn Kjartansdóttir
Útgefandi
Forlagið
Einstaklega hjartnæm og áhrifamikil saga sem hreyfir við hlustandanum og lifir með honum lengi á eftir. Höfundur dregur á ljóslifandi hátt upp myndir úr bæði fortíð og samtíð, fléttar tímasviðin saman af miklu öryggi og sýnir aðstæður margra íslenskra fjölskyldna aftur í kynslóðir. Verkið er skrifað af sterkri þörf höfundar til að reyna að skilja bæði eigið líf og annarra, einkum móður sinnar, og vinna úr flóknum tilfinningum.
Það er viðeigandi að Sæunn Kjartansdóttir flytji hinn persónulega og einlæga texta sinn sjálf. Hún gerir það afburðavel, á látlausan en hlýjan hátt, og þegar upp er staðið , ekki síður en hin litríka, sterka og óstýriláta titilpersóna bókarinnar. Frumleg og eftirminnileg.
Vetrargestir
Höfundur
Tómas Zoëga
Lestur
Salka Sól Eyfeld
Útgefandi
Storyside
Í umsögn dómnefndar, sem í þessum flokki var skipuð 11 og tólf ára krökkum, segir að sagan sé frumleg, spennandi og full af fyndni, en hafi auk þess að geyma áhrifaríkar hugleiðingar um traust og vináttu.
Lesturinn er skýr og lifandi að mati dómnefndar, svo persónur bókarinnar lifna við og erfitt er að slíta sig frá henni. Eins og einn fulltrúi dómnefndar kemst að orði: „Ef þú ert að leita þér að skemmtilegu ævintýri þá er Vetrargestir eitthvað fyrir þig.“
Marrið í stiganum
Höfundur
Eva Björg Ægisdóttir
Lestur
Íris Tanja Flygenring
Útgefandi
Storyside / Bjartur-Veröld
Marrið í stiganum hentar hljóðbókarforminu afar vel og má segja að hún njóti sín jafnvel enn betur í því formi en á blaði. Persónusköpunin er heildstæð og staðháttum er vel lýst svo þeir lifna ljóslifandi við hlustandanum, en sagan gerist á Akranesi, bæði í nútímanum og fyrir þrjátíu árum.
Lestur Írisar Tönju er flæðandi og þægilegur áheyrnar og bætir aukinni dýpt við söguna. Nútímalegur blærinn hentar sögusviðinu vel og úr verður góð blanda af spennu og nánd í þessari hljóðbókarútgáfu bókarinnar.
Gríma
Höfundu
Benný Sif Ísleifsdóttir
Lestur
Þórdís Björk Þorfinnsdóttir
Útgefandi
Storyside / Bjartur-Veröld
Frásögnin er hlýleg og grípandi, sagan heldur vel athygli og sögusviðið, fiskiþorp um miðja 20. öldina, er ljóslifandi og skemmtilegt. Línuleg frásögnin fellur vel að hljóðbókarforminu og vandaður og lifandi flutningur lesara skilar sögunni vel til hlustenda.
Lesari, Þórdís Björk Þorfinnsdóttur, hefur mjög góða tilfinningu fyrir tungumálinu. Hún er skýrmælt og sagan flæðir áreynslulaust og eðlilega af vörum hennar. Þá gefur hún karakterunum lit án þess að oftúlka þá með of miklum leikrænum tilburðum. Í heildina er hljóðbókin því vel heppnuð, bæði hvað snertir efnistök og flutning.
Vertu úlfur
Höfundur
Héðinn Unnsteinsson
Lestur
Hjálmar Hjálmarsson
Útgefandi
Forlagið
Höfuðstyrkur hljóðbókarinnar er innihaldið sjálft auk þess sem heildarsagan er sterk. Vertu úlfur er vel skrifuð upplifun af reynslu manns sem sjálfur hefur glímt við andlega veiki og veitir sjaldgæfa innsýn í upplifanir þess sem á í baráttu við geðsjúkdóm.
Flutningur Hjálmars er látlaus og skýr og laus við dramatíska tilburði af því tagi sem annars gæti spillt efni sem er allt í senn viðkvæmt og áhrifamikið."