Hanni Granni dansari
Höfundur
Gunnar Helgason
Lestur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Forlagið
Hanni granni dansari er einstaklega skemmtileg og lífleg hljóðbók þar sem öllu er tjaldað til. Mikil leik- og sönggleði einkennir texta og upplestur hljóðbókarinnar, en hljóðmyndin er lifandi þar sem meðal annars má heyra brot úr lögum með söngkonunum Selmu Björnsdóttur og Völu Guðnadóttur.
Ekki skemmdi orkumikill lestur höfundarins Gunnars Helgasonar og dómnefndarmeðlimir skemmtu sér konunglega við hlustunina. Boðskapur sögunnar er einstaklega nútímalegur og áríðandi: það skiptir máli hvernig við hegðum okkur á samfélagsmiðlum, og eins og Stella kemst að í bókinni, hafa gjörðir okkar afleiðingar. Það er kafað á dýptina þar sem samband Stellu við bæði vini, fjölskyldu og mögulegan kærasta er í forgrunni.
Semsagt, öll fjölskyldan getur skemmt sér við hlustun á hljóðbókinni Hanni granni dansari.
Hungur
Höfundur
Stefán Máni
Lestur
Rúnar Freyr Gíslason
Útgefandi
Sögur útgáfa
Hungur eftir Stefán Mána er hrollvekjandi glæpasaga þar sem tengsl milli dularfulls mannshvarfs og hrottalegs morðs um hábjartan dag koma af stað spennandi atburðarás sem afhjúpar skuggahliðar mannlegs eðlis. Brátt taka líkin að hrannast upp og ljóst er Hörður og félagar hans í lögreglunni eru að takast á við fjöldamorðingja, blóðugar aðfarir hvers bera glöggt merki um truflaðan og myrkan huga.
Sem áður fer Rúnar Freyr Gíslason á kostum í flutningi sínum sem berdreymni einfarinn Hörður Grímsson og fær hlustendur til að vilja fara að sofa með ljósin kveikt.
Óbragð
Höfundur
Guðrún Brjánsdóttir
Lestur
Arnmundur Ernst Backman
Útgefandi
JPV
Óbragð eftir Guðrúnu Brjánsdóttur er áhrifamikil en jafnframt bráðskemmtileg samtímasaga þar sem höfundur bregður á leik með kunnugleg stef á borð við covid, núvitund og örvæntingu þeirra sem verða skipreka í vellystingakapphlaupi samfélagsmiðla. Í bókinni kynnumst við Hjalta, ungum manni sem dregst inn í heim kakó-hugleiðsluklúbba eftir erfið sambandsslit.
Frásögnin er glettin en jafnframt átakanleg þar sem hún dregur fram sálarflækjur þunglyndis og einangrunar. Persónurnar, sérstaklega hinn ráðvillti Hjalti, eru ljóslifandi í lestri Arnmundar Ernst Backman, sem fangar kvíða og tilvistarkreppu hins unga manns á hátt sem breytir góðri bók í eftirminnilega upplifun.
Systrarna
Höfundar
Kathryn Hughes
Þýðing: Ingunn Snædal
Lestur
Katla Njálsdóttir, Álfrún örnólfsdóttir, Helga E. Jónsdóttir
Útgefandi
Storyside
Sigurvegari í flokki skáldsagna er Minningaskrínið eftir Kathryn Hughes í frábærri þýðingu Ingunnar Snædal. Sagan er mjög vel skrifuð, forvitnileg og er byggð á sönnum atburðum. Hún hverfist um þrjár sögumanns raddir og í þessari snjöllu hljóðbók fær hver rödd sinn sérstaka lesara sem bætir vel við gæði sögunnar og skilar sér í eftirminnilegri hlustun.
Í Minningaskríninu eru möguleikar hljóðbókarinnar nýttir til fulls. Það er unun að hlusta á þær Kötlu, Álfrúnu og Helgu. Lestur þeirra er eðlilegur, áreynslulaus og flæðir vel.
Systrarna
Höfundur
Sigursteinn Másson
Lestur
Sigursteinn Másson
Útgefandi
Storytel Original
Fá sakamál á Íslandi hafa jafn goðsagnakennda stöðu í vitund þjóðarinnar og Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Í Réttarmorði er ljóst frá upphafi að sögumaðurinn og rannsakandinn Sigursteinn Másson hefur unnið mikið þrekvirki og hefur djúpan og persónulegan skilning á efninu.
Réttarmorð er virkilega vel unnið verk, þar sem flókinni framvindu er miðlað á skýran og áhrifaríkan hátt. Það er ekki auðvelt að finna nýjan flöt á máli sem er líklega umfjallaðasta sakamál Íslandssögunnar en hér tekst það, ekki síst vegna þess að höfundurinn setur sjálfan sig inn í miðju framvindunnar, svo úr verður persónulegt og fróðlegt verk.
Með þessari seríu tekst Sigursteini að færa þetta óupplýsta mál í nýtt og forvitnilegt samhengi. Frásögnin er aðgengileg og laus við að vera ruglingsleg. Það styður vel við framvinduna að flétta inní frásögnina því sem var að gerast útí hinum stóra heimi á þessum tíma. Þetta er dýrmæt heimild fyrir sögu íslenskra sakamála.
Hljóðvinnsla er til fyrirmyndar og bætir miklu við hlustunarupplifunina bæði með effektum og mjög vel völdum bútum úr lögum frá þessum tíma, þ.e.a.s. frá áttunda áratugnum. Lestur Sigursteins er skýr og ákveðinn og hentar efninu vel.
Litla hafmeyjan
Höfundur
Anna Bergljót Thorarensen
Lestur
Andrea Ösp Karlsdóttir, Anna Bergljót Thorarensen, Árni Beinteinn Árnason, Stefán Benedikt Vilhelmsson, Sigsteinn Sigurbergsson, Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir, Þórunn Lárusdóttir
Útgefandi
Leikhópurinn Lotta
Litla hafmeyjan er einstaklega skemmtileg og vel gerð hljóðbók. Upphaflega var Litla hafmeyjan söngleikur sem Leikhópurinn Lotta sýndi um land allt en aðlagaði svo einstaklega vel að hljóðbókaforminu.
Dómnefndin var sammála að leikgleðin hafi ráðið ríkjum þar sem heildar myndin var virkilega sterk og allir leikarar fóru á kostum í hlutverkum sínum og ekki skemmdi fyrir frábær boðskapur varðandi náttúruvernd.
Einnig vildum við minnast á hversu skemmtilega snúið er upp á söguna um Litlu hafmeyjuna og sjá má frábæra birtingamynd ástarinnar sem blómstar að lokum á milli konungssonarins Hlina og hafmeyjunnar Sævars.
Þú sérð mig ekki
Höfundur
Eva Björg Ægisdóttir
Lestur
Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Haraldur Ari Stefánsson, María Dögg Nelson, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Sigríður Láretta Jónsdóttir og Þórey Birgisdóttir
Útgefandi
Veröld
Þú sérð mig ekki eftir Evu Björgu Ægisdóttur fléttar saman mikla fjölskyldusögu við spennandi glæpasögu sem á sér stað á lúxushóteli á Snæfellsnesi. En þegar hin áhrifamikla Snæbergsfjölskylda kemur öll saman undir sama þaki er voðinn vís og gömul fjölskylduleyndarmál leita upp á yfirborðið. Bókin er metnaðarfullt verkefni og vel uppbyggð.
Enn sýnir Eva Björg hvers vegna hún er einn fremsti glæpasagnahöfundur vorrar þjóðar. Góð bók verður enn betri í hljóðbókarlestri færs lesendahóps, en hann skipa: Sigríður Láretta Jónsdóttir, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Þórey Birgisdóttir, Haraldur Ari Stefánsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson og María Dögg Nelson. Hver og einn lesari gæðir persónur bókarinnar lífi, eykur áhrif söguþráðarins til muna og hjálpar hlustandanum að greina á milli persónanna. Þú sérð mig ekki er kraftmikil glæpasaga sem lifnar við á nýjan hátt í eyrum hlustanda sem vill ekki slökkva á tækinu fyrr en síðasti taktur hljóðbókarinnar slær.
Litla bakaríið við Strandgötu
Höfundu
Jenny Colgan
Þýðing: Ingunn Snædal
Lestur
Ester Talía Casey
Útgefandi
Angústúra
Það sem fær Litla bakaríið við Strandgötu til að bera af í sínum flokki er natnin sem Jenny Colgan sýnir við að draga fram vettvang sögunnar – smáþorpið Mount Polbearne við strendur Cornwall-sýslu. Þangað flýr aðalsöguhetjan Polly í leit að andrými eftir ófarir í bæði atvinnu- og ástamálum. Á þessum heillandi útnára, sem er einungis aðgengilegur frá meginlandinu þegar sjávarföll leyfa, kynnist hún ýmsum kynlegum kvistum. Lesandinn fylgist með því hvernig Polly aðlagar sig smátt og smátt að lífinu í þessu rólega þorpi og skapar sér sinn sess á meðal þorpsbúa.
Í meðhöndlun Colgan breytist þorpið og nærumhverfi þess í töfrandiveröld sem er freistandi að gleyma sér í um stund og hikar hún ekki við að nostra við jafnvel sínar smæstu persónur og gæða þær lífi. Það er því einkar aðdáunarvert hvernig þægilegur og áreynslulaus lestur Estherar Talíu Casey nær að halda utan um þetta stóra persónugallerí.
Konan hans Sverris
Höfundur
Valgerður Ólafsdóttir
Lestur
Margrét Örnólfsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Í Konunni hans Sverris fáum við að heyra hispurslausa frásögn konu sem hefur loks fundið frelsið til að segja sögu sína á eigin forsendum. Hildur, sögukona bókarinnar, lýsir á blákaldan máta veruleika kvenna sem eru fastar árum eða áratugum saman í samböndum sem ógna lífi þeirra og heilsu. Hún hlífir hvorki sjálfri sér né geranda sínum þegar hún tekst á við sjálfsblekkinguna og réttlætingarnar sem fólk leitar í til að lifa af í slíkum aðstæðum.
Saga Hildar er um margt svo kunnugleg. Lesandinn fær á tilfinninguna að andlega og líkamlega ofbeldið sem hún lýsir gæti allt eins átt sér stað í næsta húsi eða innan eigin
fjölskyldu.
Lestur Margrétar Örnólfsdóttur gæðir rödd Hildar bæði þroska og visku konu sem horfir til baka og syrgir glataðan tíma en finnur jafnframt fyrir styrk sínum í því að hafa lagt ofbeldið að baki og skapað öruggt skjól fyrir sjálfa sig og börnin sín.
Veran í moldinni
Höfundur
Lára Kristín Pedersen
Lestur
Þuríður Blær Jóhannsdóttir
Útgefandi
Sögur útgáfa
Veran í moldinni – Hugarheimur matarfíkils í leit að bata eftir Láru Kristínu Pedersen er virkilega voguð og skörp frásögn höfundar á mjög áhugaverðu efni sem fáir þekkja en margir geta tengt við. Fíknin birtist okkur í mörgum myndum.
Lára Kristín segir frá, opnar sig og ritar sína sögu um baráttu við matarfíkn af einlægni og heiðarleika. Hún berskjaldar sig fyrir hlustandanum og hikar hvergi við að galopna hjarta sitt og horfast í augu við þá erfiðleika og það mótlæti sem þessi erfiði sjúkdòmur hefur að geyma. Hún er sjálfsgagnrýnin og dregur ekkert undan í frásögn sinni.
Skýr lestur og áheyrileg rödd Þuríðar Blævar bætir við söguna með sinni næmu nálgun og góðri tilfinningu fyrir efninu. Frásögnin er fræðandi og aðgengileg og hentar hljóðbókarforminu vel.
Hundrað óhöpp Hemingways
Höfundur
Lilja Sigurðardóttir
Lestur
Örn Árnason, Lilja Sigurðardóttir, Lára Sveinsdóttir, Kolbeinn Arnbjörnsson, María Dögg Nelson
Útgefandi
Storytel Original
Lilju Sigurðardóttur tekst einstaklega vel að draga upp mynd af lífshlaupi nóbelskáldsins Ernest Hemingway og nýtir til þess alla bestu möguleika hlaðvarpsmiðilsins. Persónulegur áhugi og ástríða Lilju fyrir efninu skín vel í gegn, þá helst í skálduðum samtölum sem binda listilega saman framvinduna.
Hljóðupptökur eru vandaðar, hljóðvinnslan og hljóðblöndunin er til fyrirmyndar þannig að þættirnir mynda mjög sterka og áheyrilega heild.